Fulham hefur fest kaup á miðverðinum Alfie Mawson frá Swansea City. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við Fulham.

Mawson hóf ferilinn hjá Brentford, lék með Barnsley í eitt tímabil og fór svo til Swansea 2016. Þar vakti hann athygli fyrir góða frammistöðu.

Hinn 24 ára Mawson var valinn í enska landsliðið í mars en á enn eftir að spila sinn fyrsta landsleik.

Fulham er nýliði í ensku úrvalsdeildinni. Félagið ætlar sér stóra hluti og hefur látið til sín taka á félagaskiptamarkaðinum í sumar.

Auk Mawson hefur Fulham m.a. keypt Jean Seri, Aleksandar Mitrovic og markvörðinn Fabri og fengið André Schürrle að láni frá Borussia Dortmund.

Fulham tekur á móti Crystal Palace í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar laugardaginn 11. ágúst.