Knattspyrnudeild FH hefur komist að samkomulagi við Vålerenga um kaup á Matthíasi Vilhjálmssyni.

Matthías sem skrifar undir þriggja ára samning við FH kemur til Hafnarfjarðarliðsins um komandi áramót.

Þessi 33 ára gamli Ísfirðingur kom ungur að árum í Kaplakrika en hann lék á sínum tíma 151 leiki fyrir FH og skoraði í þeim leikjum 46 mörk.

Hann er að koma í Krikann eftir farsælan atvinnumannaferil í Noregi þar sem hann meðal annars spilaði 109 leiki, skoraði 28 mörk, vann fjóra Noregsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla með Rosenborg.

Þar áður varð Matthías fjórum sinnum Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með FH á árunum 2005-2010.