Ein ó­væntustu úr­slit síðari ára á Heims­meistara­mótinu í knatt­spyrnu litu dagsins ljós í fyrsta leik dagsins á HM í Katar þegar að Sádi-Arabía gerði sér lítið fyrir og bar sigur út býtum gegn stjörnu­prýddu liði Argentínu í C-riðli.

Argentína, sem var fyrir mót talið eitt af sigur­strang­legustu liðum HM, réði ferðinni eins og við bar búist í fyrri hálf­leik leiksins, Sádi Arabar áttu ekki skot að marki í hálf­leiknum.

Það var strax á áttundu mínútu sem brotið var á Leandro Par­edes, leik­manni Argentínu innan víta­teigs og víta­spyrna dæmd. Lionel Messi steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi fram hjá Mohammed Al-Owais í marki Sádi-Arabíu.

Argentínu­menn komu boltanum aftur í netið í fyrri hálf­leik en voru nappaðir í rangtöðu, leikar í hálf­leik stóðu því 1-0 fyrir Argentínu.

Flestir héldu að yfir­burðir Argentínu myndu halda á­fram í síðari hálf­leik en sú varð ekki raunin.

Fyrsta skot Sádi-Arabíu að marki endaði í netinu strax á þriðju mínútu síðari hálf­leik, þar var Saleh Al-Shehri að verki eftir stoð­sendingu frá Firas Al-Buraikan.

Sádarnir héldu á­fram að þjarma að Argentínu og það skilaði sér í öðru marki fimm mínútum síðar, nánar til­tekið 53. mínútu þegar að Salem Al-Dawsari átti virki­lega flott skot sem Emili­ano Martinez í marki Argentínu réði ekki við.

Argentínu­menn reyndu í kjöl­farið allt hvað þeir gátu að jafna leikinn en leik­menn Sádi-Arabíu sýndu mikinn karakter, vörðust hetju­lega og unnu að lokum ó­trú­legan 2-1 sigur.

Síðar í dag mætast Mexíkó og Pólland í hinum leik riðilsins. Argentínumenn munu síðan mæta Mexíkó í næsta leik sínum á meðan Sádi-Arabía mætir Póllandi.