Vincent Kompany byrjar illa sem þjálfari og leikmaður uppeldisfélags síns Anderlecht sem hefur ekki byrjað deildarkeppnina verr í 21 ár.

Kompany tilkynnti það óvænt að hann myndi ekki endurnýja samning sinn við Manchester City síðasta vor og var þá staðfest að hann hefði verið ráðinn sem spilandi þjálfari Anderlecht í Belgíu.

Miðvörðurinn heillaði forráðamenn Anderlecht þrátt fyrir að hafa aðeins stýrt æfingum hjá U16 kvennaliði Manchester City og var Kompany ætlað að koma félaginu aftur í fremstu röð eftir dapurt tímabil í fyrra.

Hann hefur ekki fengið neina óskabyrjun, félagið er með tvö stig eftir fjóra leiki þrátt fyrir að hafa fengið digran sjóð til að ausa í nýja leikmenn í sumar og fengið leikmenn á borð við Samir Nasri og Nacer Chadli til Belgíu.

Kompany hefur sjálfur leikið allar 90. mínúturnar í öllum fjórum leikjunum og bað stuðningsmenn Anderlecht afsökunar og biðlaði um leið um þolinmæði eftir síðasta leik liðsins, 2-4 tap gegn Kortrijk.

Þá hefur það vakið athygli í Belgíu að í næsta landsleikjahléi mun Kompany sem þjálfari félagsins taka þátt í verkefnum belgíska landsliðsins og leika í góðgerðarleik í Manchester í stað þess að vinna í að lagfæra spilamennsku liðsins á æfingarsvæðinu.