Martin Hermannsson, einn besti körfuboltamaður Íslands, skaut föstum skotum á ríkisstjórn Íslands á Twitter í gær eftir að tilkynnt var að ekki væri gert ráð fyrir þjóðarleikvöngum í nýrri fjármálaáætlun.

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem Bjarni Benediktsson kynnti í gær kom fram að ekki væri gert ráð fyrir nýjum þjóðarleikvöngum, þrátt fyrir að sérsamböndin hafi kallað eftir bættri aðstöðu um árabil.

Óhætt er að segja að það hafi ekki vakið mikla lukku innan íþróttasamfélagsins eftir áralanga bið eftir aðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur.

Körfuboltalandsliðið lenti í því á dögunum að geta ekki leikið heimaleik hér á landi eftir að hafa leikið um árabil á undanþágu.

Það sama er upp á teningunum hjá handbolta- og knattspyrnulandsliðum Íslands þar sem leikvangar Íslands hafa verið á undanþágum.

Um leið er Laugardalshöll ónothæf eftir að vatnsskemmdir gerðu það að verkum að það þurfti að skipta um gólfefni.