Ísland hafði betur gegn Hollandi, 79-77, þegar liðin mæt­ast í fyrstu umferð í H-riðli í undan­keppni HM 2023 í körfubolta karla í Al­m­ere í Hollandi í kvöld.

Eftir jafna fyrstu tvo leikhluta náði íslenska liðið góðum spretti í upphafi þess þriðja. Leikmenn hollenska liðsins voru hins vegar ekki af baki dottnir en þeir jöfnuðu metin þegar um það bil þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta.

Ísland var sterkari aðilinn í lokakafla leiksins en þriggja stiga körfur frá Jóni Axel Guðmundssyni og Martin Hermannssyni þegar rúmlega ein og hálf mínúta var eftir af leiknum komu íslenska liðinu níu stigum yfir.

Holland náði að minnka muninn í þrjú stig en Ísland sigldi hins vegar sigrinum í höfn. Ægir Þór inniglaði sigurinn með tveimur stigum í lokasókn íslenska liðsins í leiknum.

Martin, sem var að spila sinn fyrsta landsleik síðan árið 2019, var stigahæstur hjá Íslandi með 27 stig. Elvar Már Friðriksson skoraði 16 stig, Ægir Þór Steinarsson 15 stig og Jón Axel Guðmundsson 11 stig.

Tryggvi Snær Hlinason reif niður átta fráköst í leiknum og Jón Axel fimm. Ægir Þór gaf sex stoðsendingar á samherja sína.

Auk Hollands er Ísland í riðli með Rússlandi og Ítalíu. Ísland og Rússland leiða saman hesta sína í Pétursborg á mánudaginn kemur.

Craig Pederson, þjálfari Íslands, þarf að brýna fyrir lærisveinum sínum að fækka töpuðum boltum í þeim leik en íslenska liðið missti boltann 24 sinnum í hendur hollenska liðsins.