Báðir leikir Íslands fara fram á útivelli. Eins og komið hefur fram að undanförnu þurfti að skipta um heimaleik og útileik gegn Rússlandi vegna aðstöðuleysis á Íslandi. Ekkert hús stenst grunn keppniskröfur FIBA eins og er en Laugardalshöllin, sem er á undanþágu, er ónothæf eins og sakir standa.

Í samtali við RÚV á dögunum segir Martin að ástandið tengt aðstöðuleysi sé óboðlegt. ,,Það segir sig bara sjálft að þetta ástand er óboðlegt að körfuboltinn og handboltinn hafi bara ekki pláss á Íslandi. Ég var að segja strákunum í liðinu mínu hérna úti frá þessu að við hefðum þurft að spila heimaleikinn okkar við Rússa úti í Rússlandi af því við ættum ekki hús til að spila í. Þannig það er orðinn svona léttur brandari innan liðsins að við getum ekki haldið einn körfuboltalandsleik á Íslandi."

Hann segir það skjóta skökku við að sveitabæjir í löndum á borð við Slóveníu, Frakkland og á Spáni, gætu haldið leiki í keppnum á vegum FIBA en að Íslendingar eigi ekki löglega aðstöðu.

,,Ég var sjálfur mjög spenntur að koma heim og spila fyrir framan fjölskyldu og vini. En svo er það bara tekið af manni af því það er ekki til hús. Af því það er ekki til hús með tveimur körfum sem er viðurkennt af FIBA sem er bara fáranlegt," sagði Martin Hermannsson í samtali við RÚV.

En það er bara svekkelsi við að geta ekki spilað heimaleik sem snertir Martin. ,,Svo var mér líka boðið í brúðkaup á þessum tíma sem ég hefði getað farið í, í leiðinni. Þannig ég missi af því þá líka," sagði Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta og leikmaður spænska liðsins Valencia.