For­ráðamenn fé­laganna í þýsku efstu deild­ karla í körfubolta áforma að halda úrslitakeppni til þess að knýja fram úrslit í deildinni. Þar af leiðandi gæti Martin Hermannsson, leikmaður Alba Berlin, verið á leið með liði sínu inn á körfuboltavöllinn fljótlega.

Tíu af þeim sautján liðum sem leika í deildarkeppninni hafa samþykkt að halda keppni áfram sem hefur verið í hléi síðustu vikurnar vegna kórónaveirufaraldursins.

Gangi áætlun forráðamannanna eftir verður liðunum tíu skipt í tvo fimm liða riðla og eftir riðlakeppnina verða svo spiluð átta liða úrslit og þýskur meistari krýndur. Þessi keppni á að taka þrjár vikur í framkvæmd og leikirnir verða án áhorfenda.

Ef forkólfar körfuboltayfirvalda fá samþykki stjórnvalda til þess að spila þessa leiki verður ákvörðun um leikstað og dagsetningar tekin 4. maí næstkomandi. Alba Berlin var í fjórða sæti deilarinnar þegar hlé var gert en liðið tryggði sér þýska bikarinn fyrr á þessari leiktíð.