Körfuboltakappinn Martin Hermannsson, sleit krossband í leik með liði sínu Valencia gegn Baskonia í oddaleik liðanna í 8-liða úrslitum spænsku deildarinnar í gær. Þetta staðfestir Valencia með tilkynningu á heimasíðu sinni í morgun.

Martin var borinn af velli í gærkvöldi og ljóst er að langt bataferli er framundan. Martin hefur verið besti körfuboltamaður Íslands undanfarin ár og um mikið áfall er að ræða bæði fyrir íslenska landsliðið í körfubolta sem og Valencia.

Martin tjáir sig um meiðslin í færslu sem birtist á Twitter í morgun: ,,Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn og fallegu skilaboðin sem ég hef fengið. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Þetta er bara önnur áskorun sem ég þarf að takast á við, get ekki beðið eftir því að vinna að batanum. Sé ykkur fljótlega."