Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, segir að það hafi bæði körfuboltalegar og fjárhagslegar ástæður búið að baki því að hann samdi við spænska úrvalsdeildarliðið Valencia. Martin er ætlað stórt hlutverk hjá Valencia sem er að hrista rækilega upp í leikmannahópi sínum fyrir næstu leiktíð.

„Ég var með þó nokkur tilboð í höndunum og ég var nánast búinn að semja við annað lið í upphafi vikunnar. Það voru hins vegar hlutir í samningnum þar sem mér fannst ekki nógu hagstæðir fjárhagslega þannig að ég beindi sjónum mínum að Valencia," segir Martin í samtali við Fréttablaðið.

„Valencia hefur sýnt mér áhuga síðustu tvö árin um það bil og fylgst vel með framgangi mála hjá mér. Það skemmdi svo ekki fyrir að Jón Arnór [Stefánsson] gaf félaginu sín bestu meðmæli. Þeir buðu mér besta samninginn og fjárhagslegt öryggi með því að bjóða mér þriggja ára samning," segir bakvörðurinn enn fremur um ákvörðun sína.

„Þeir eru eitt af fáum liðum í Evrópu sem hafa nú þegar gert við alla leikmenn frá því á síðasta keppnistímabili og forráðamenn félagsins eru stórhuga fyrir næsta vetur. Það er búið að semja við Derek Williams og slóvenskan landsliðsmann sem spilaði með Real Madrid fyrir utan mig svo dæmi séu tekin," segir hann um stöðu mála hjá Valencia.

„Hvað körfuboltann varðar þá er þarna þjálfari sem er með svipaða hugmyndafræði og sá sem var að þjálfa mig hjá Alba Berlin. Þeir eru að færa mér lyklana að liðinu og fíla það í botn. Það eru plön um að berjast um alla þá titla sem í boði eru og þetta er lið sem getur gert sig gildani heima fyrir og í Euro League," segir landsliðsmaðurinn um framhaldið.

„Það er mjög þægileg tilfinning að vera búinn að ákveða mig eftir að hafa legði undir feldi síðustu vikurnar. Í ljósi stöðunnar í heiminum og fjárhagstsöðu félaganna í Evrópu þá er líka mjög gott að vera búinn að semja til langs tíma við fjárhagslega stöðugt félag," segir Martin.