Wojciech Szczesny, markvörður pólska landsliðsins í knattspyrnu segist hafa gert veðmál við Lionel Messi í leik Póllands og Argentínu í gær á HM í Katar. Szczesny var á því að vítaspyrna yrði ekki dæmd er hann stjakaði við Messi.
Frá þessu greinir Szczesny í viðtali eftir leik en vendipunktur fyrri hálfleiksins í leiknum kom á 37. mínútu þegar að Szczesny, sem stóð í marki Póllands, slæmdi hendi í Lionel Messi innan vítateigs eftir að Messi hafði skallað boltann fram hjá marki.
Dómari leiksins, Hollendingurinn Danny Desmond Makkelie var beðinn um að skoða atvikið í VAR-sjánni og komst að þeirri umdeildu ákvörðun að Szczesny hefði brotið á Messi og því vítaspyrna dæmd.
Á meðan að dómarinn skoðaði atvikið í VAR-sjánni segist Szczesny hafa gert veðmál við Messi.
,,Ég hélt að vítaspyrna yrði ekki dæmd. Við (Messi) töluðum saman fyrir vítið og ég sagðist vilja gera veðmál upp á 100 evrur að hún yrði ekki dæmd."
Vítaspyrnan var síðan dæmd og Szczesny tapaði veðmálinu.
,,Ég veit ekki hvort svona veðmál eru leyfð á HM, ætli ég verði ekki settur í bann en það skiptir ekki máli," sagði Szczesny í hæðnistón en hann gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna frá Messi.
Szczesny segist ekki ætla að standa við veðmálið.
,,Honum er slétt sama um 100 evrur."
Når du taper veddemål mot Messi, men nekter å betale😅
— TV 2 Sport (@tv2sport) November 30, 2022
🎤@arilasos pic.twitter.com/fe6Bc6iH2q