Tillögur forráðamanna ensku úrvalsdeildarfélaganna í knattspyrnu karla, Liverpool og Manchester United, um breytingar á fyrirkomulagi í ýmsum málum er varða ensku deildarkeppnina hafa hrist verulega upp í umræðunni og sitt sýnist hverjum um ágæti þeirra hugmynda. Fréttablaðið fékk Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóra Greiningar Íslandsbanka og sérfræðing um fjármál í íþróttum, til þess að rýna í þessar hugmyndir.

„Það eru fjórar tillögur sem mér finnast athyglisverðastar. Fyrir það fyrsta er það fækkunin á liðunum í ensku úrvalsdeildinni úr 20 í 18 og um leið á að gera það erfiðara að komast upp úr ensku næstefstu deildinni með því að þriðja neðsta sætið í úrvalsdeildinni fari í umspilið um laust sæti í deildinni.

Svo er það þessi 250 milljóna punda björgunarpakki til félaganna í deildunum fyrir neðan úrvalsdeildina sem er lagður á borðið á þessum tímapunkti þar sem ljóst er að þau lið sem eru ekki í úrvalsdeildinni geta mörg hver ekki lifað af núverandi ástand mikið lengur. Þarna er í raun verið að greiða félögunum í neðri deildunum og bjarga þeim frá líklegu gjaldþroti fyrir að minnka líkur þeirra á að komast upp í úrvalsdeildina.

Félögin í úrvalsdeildinni eru þannig rekin að þau munu væntanlega lifa af kórónaveirufaraldurinn án teljandi utanaðkomandi aðstoðar að því gefnu að næsta tímabil verði leikið við eðlilegar aðstæður. Þar eru tekjurnar svo miklar að eigendur hafa getað fjárfest í félaginu á undanförnum árum.

Félögin í deildunum þar fyrir neðan eru hins vegar flest öll rekin með tapi og einhver á núlli. Eigendur þeirra félaga eru ekki jafn fjárhagslega sterkir og í úrvalsdeildinni og þar er þörfin fyrir leikdagstekjur miklu meiri. Þar sjáum við fram að án utanaðkomandi aðstoðar fari mörg þeirra í gjaldþrot ef ekkert verður að gert,“ segir Björn Berg um stöðu mála.

„Með þessum tillögum er verið að freista þess að taka skref í átt að því að breikka bilið á milli úrvalsdeildarinnar og deildanna þar fyrir neðan. Færa úrvalsdeildina nær því að vera einhvers konar ofurdeild. Liður í því er að veita þeim níu félögum sem hafa verið lengst í úrvalsdeildinni, það er Manchest­er United, Liverpool, Manchester City, Chelsea, Arsenal, Tottenham, Everton, West Ham og Southampton aukið vald við ákvarðanatöku um málefni deildarinnar. Þannig að það nægi að sex af þessum séu með eða á móti breytingatillögu til þess að tillagan nái fram að ganga. Með þessu væri til að mynda einfaldara að breyta því fyrirkomulagi sem nú er um að sjónvarpsréttargreiðslur á innanlandsmarkaði dreifist jafnt á milli félaganna í deildinni og auka muninn sem er á greiðslum til félaganna sem koma til vegna sjónvarpsréttarins erlendis.

Björn Berg Gunnarsson er á því að félögin muni hafna tillögunum.

Það sem er hins vegar róttækasta tillagan fjárhagslega er að félögin í neðri deildunum fái 25 prósent af þeim sjónvarpsréttargreiðslum sem sameiginlega verður samið um fyrir úrvalsdeildarfélögin og deildirnar þrjár fyrir neðan. Félögin myndu hins vegar í staðinn afsala sér svokallaðri fallhlífargreiðslu sem félögin fá þegar þau falla úr úrvalsdeild í næst efstu deild.

Ef félögin í neðri deildunum myndu fá 25 prósent af sjónvarpsréttargreiðslum fyrir ensku úrvalsdeildina skiptu þau á milli sín greiðslum upp á ríflega 700 milljónir punda sem er umtalsvert hærra en þau fá í sinn hlut í núverandi fyrirkomulagi. Til samanburðar má nefna að félög í næstefstu deild fá hvert um sig um fimm milljónir punda í sjónvarpstekjur samkvæmt þeim samningi sem nú gildir. Þarna er einnig verið að leggja til að enska knattspyrnusambandið fái í sinn hlut 100 milljónir punda frá úrvalsdeildarfélögunum,“ segir hann.

„Ef ég væri stjórnarformaður hjá félagi sem er ekki hluti af sex sterkustu félögum úrvalsdeildarinnar sæi ég engan hag af því að samþykkja þessar tillögur. Þar með væri ég að gera mér erfiðara fyrir að halda mér í deildinni og komast aftur í hana ef liðið mitt myndi falla. Lið sem fara reglulega á milli ensku úrvalsdeildarinnar og þeirrar næstefstu eru að afsala sér því forskoti sem fallhlífargreiðslan veitir þeim eftir að þau hafa fallið úr úrvalsdeildinni. Lið sem falla þaðan hefja næsta tímabil þar á eftir með um það bil tvöfalt til þrefalt meiri tekjur en hin liðin í deildinni og eru þar af leiðandi mun líklegri til þess að fara aftur upp í gullnámuna sem úrvalsdeildin er,“ segir Björn Berg um áhrif tillagnanna fyrir félögin sem standa vanalega utan sex efstu sæta deildarinnar.

Svo virðist sem vangaveltur Björns Berg eigi hljómgrunn hjá eigendum þeirra félaga sem eru ekki í hópi sex sterkustu liða úrvalsdeildarinnar. Þannig hefur það heyrst að forráðamenn West Ham United sem er eitt þeirra félaga sem fengi aukið vægi við ákvarðanatöku um málefni deildarinnar sé mótfallið þeim tillögum sem settar hafa verið fram.