Staðan er markalaus í hálfleik í leik Íslands og Belgíu á Evrópumóti kvenna sem stendur yfir þessa stundina. Ísland fékk vítaspyrnu en Nicky Evrard varði frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur.

Þetta er fyrsti leikur liðanna á EM en síðar í dag mætast Ítalir og Frakkar sem eru með Stelpunum okkar í D-riðli.

Belgíska liðið fékk betri færi framan af en bakverðir Belga áttu í stökustu vandræðum með Sveindísi Jane Jónsdóttur sem skipti um væng um miðbik fyrri hálfleiks.

Sveindís var nýbúin að brenna af úr góðu færi þegar hún krækti í vítaspyrnu. Skot Sveindísar fór af hendi Davina Philtjens og yfir en dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu með notkun myndbandsdómgæslu.