Mark Benjamin Pavard í 4-3 sigri Frakklands gegn Argentínu í 16-liða úrslitunum á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi var í dag valið sem besta mark mótsins.

Alls voru 169 mörk skoruð í Rússlandi og birti Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, í dag lista yfir tíu fallegustu mörk mótsins en þau má sjá hér fyrir neðan.

Gegn Argentínu jafnaði Pavard leikinn með snyrtilegu ristarskoti eftir sendingu frá Lucas Hernandez, vinstri bakverði Frakklands.

Mark Ahmed Musa gegn Íslandi þar sem hann fór illa með Kára Árnason og Hannes Þór Halldórsson ratar einnig á listann en það var kosið 8. fallegasta mark mótsins.