Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætti Úganda í vináttuleik í Belek í Tyrklandi í dag. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Ekki er um alþjóðlegan leikdag hjá FIFA að ræða og því voru helstu stjörnur íslenska landsliðsins ekki með en leikmenn frá félögum af Norðurlöndunum, þar með talið Íslandi, skipuðu meirihluta landsliðshóps Íslands.

Margir hverjir voru að leika sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland en það var Jón Daði Böðvarsson, sem leiddi framlínu Íslands, ekki að gera.

Jón Daði sem hefur ekkert spilað með félagsliði sínu Millwall síðan í ágúst, kom Íslendingum á bragðið með marki á 5. mínútu leiksins. Um var að ræða skallamark hjá Jóni Daða sem kom eftir laglegt samspil Viðars Ara Jónssonar og Viktor Karls Einarsonar hægra megin á vellinum.

Staðan 1-0 fyrir Ísland og þannig stóðu leikar allt þar til á 32. mínútu. Ari Leifsson, varnarmaður Íslands, braut af sér innan teigs og dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu.

Patrick Henry Kaddu tók spyrnuna fyrir Úganda og skoraði nokkuð örugglega framhjá Jökli Andrésssyni sem stóð í marki Íslands.

Liðin skiptust á að sækja eftir þetta en þó án þess að skora fleiri mörk. 1-1 jafntefli niðurstaðan í fremur bragðdaufum leik.

Ísland mætir næst Suður-Kóreu í leik sem fer einnig fram í Tyrklandi á laugardaginn kemur.