Björn Bergmann Sigurðarson skoraði langþráð mark fyrir Rostov þegar liðið mætti Tambov í rússnesku efstu deildinni í knattspyrnu karla í dag.

Því miður dugði mark Björns Bergmanns sem kom Rostov yfir í leiknum ekki til þar sem Tambov kom til baka og tryggði sér 2-1 sigur. Ragnar Sigurðsson spilaði allan leikinn fyrir Rostov.

Þetta var annað mark Björns Bergmanns í deildinni á yfirstandandi leiktíð en hann skoraði síðast í upphafi ágústmánuðar.

Rostov missti þarna af mikilvægum stigum í baráttunni sinni um rússneska meistaratitilinn en liðið er í öðru sæti deildarinnar með þremur stigum minna en Zenit Pétursborg sem trónir á toppnum.