Mario Balotelli, einn skrautlegasti karakter knattspyrnuheimsins, samþykkti í gær að snúa aftur til franska félagsins Nice og leika undir stjórn Patrick Vieira á þessu tímabili.

Balotelli hefur leikið með Nice undanfarin tvö ár eftir misheppnaða dvöl hjá Liverpool þar áður.  Hefur hann skorað 43 mörk í 66 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.

Neitaði hann að mæta aftur til æfinga hjá félaginu í von um að fá félagsskipti til Marseille í gegn. Eftir langar viðræður um kaupverð komust félögin ekki að samkomulagi og mun hann því snúa aftur til félagsins.

Hefur hann einnig leikið með AC Milan, Inter Milan og Manchester City á ferli sínum ásamt því að leika 35 leiki fyrir hönd Ítalíu og skora í þeim fjórtán mörk.