María Finnbogadóttir, A-landsliðskona í alpagreinum, stóð uppi sem sigurvegari á austurríska meistaramótinu á aldursbilinu 16-20 ára í dag sem er alþjóðlegt FIS-mót.

Akureyringurinn vann sér sæti í A-landsliði Íslands á dögunum og er að gera frábæra hluti þessa dagana eftir að hafa lent í 10. og 11. sæti á sterkum svigmótum í Austurríki fyrir jól.

María sem verður tvítug á þessu ári kom í mark á 51,89 í fyrri ferð dagsins sem var besti tíminn í fyrri ferðinni en hún var ellefu sekúndubrotum frá því að ná besta tíma í seinni ferð dagsins á 51,32.

Það kom ekki að sök þar sem heildartími Maríu, 1:43,21 var 52 sekúndubrotum betri en tími Lisu Pilz frá Austurríki.

Er þetta fyrsti sigur Maríu á alþjóðlegu FIS-móti eftir því sem kemur fram á heimasíðu Skíðasambands Íslands.