Manchester United staðfesti í dag kaupin á norska landsliðsmiðverðinum Maríu Þórisdóttir sem er af íslenskum ættum og er því fyrsti fulltrúi Íslands hjá félaginu.

María kemur til Manchester United frá Chelsea en liðin eru að berjast um meistaratitilinn í WSL-deildinni.

Miðvörðurinn átti hálft ár eftir af samningi sínum við Chelsea en hún skrifaði undir tveggja ára samning til Manchester United.

María er fædd og uppalin í Noregi en hún er dóttir Þóris Hergeirssonar og á því ættir að rekja til Selfoss. Þau heimsækja Ísland reglulega.

Hún á að baki 46 leiki fyrir norska landsliðið og var í lykilhlutverki þegar norska liðið komst í átta liða úrslitin á HM í Frakklandi árið 2019.