María Catharina Ólafsdóttir Gros er gengin til liðs við skoska félagið Celtic í Glasgow frá Þór/KA og hefur samið við félagið til næstu tveggja ára. Þetta kemur fram í frétt á facebook-síðu Þórs/KA.

Celtic varð í öðru sæti skosku úrvalsdeildarinnar á síðasta keppnistímabili, eftir harða keppni við Glasgow City FC, liðið sem Arna Sif Ásgrímsdóttir lék með um tíma í vetur og vor.

Þrátt fyrir ungan aldur á María Catharina þegar að baki 48 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim sex mörk.

María Catharina sem er fædd árið 2003 á jafnframt að baki 24 landsleiki með U-16 og U-17 ára landsliðum Íslands en hún hefur skorað í þeim leikum þrjú mörk. Hún var nýlega valin í æfingahóp U-19 ára landsliðsins, sem tekur þátt í undanriðli EM í september og mætir þar Svíum, Frökkum og Serbum.

Fram undan leikir í Meistaradeild Evrópu

María Catharina hélt utan til Skotlands fyrir nokkrum dögum og mun spila æfingaleik með liðinu gegn Sunderland í kvöld. Formleg undirskrift samningsins fer svo fram á morgun. Hún mun því ekki klára tímabilið með Þór/KA.

Þó svo keppnistímabilið í Skotlandi sé ekki hafið eru engu að síður verkefni fram undan því liðið tekur þátt í Meistaradeild Evrópu. Celtic mætir spænska liðinu Levante 18. ágúst. Sigurliðið úr þeim leik mætir sigurliðinu úr viðureign FC Minsk frá Hvíta-Rússlandi og Rosenborg frá Noregi þremur dögum síðar.

Áður en kemur að þessum Evrópuleikjum tekur liðið þátt í æfingamóti í Austurríki og mætir þar sterkum evrópskum liðum.

Aðalþjálfari Celtic er Fran Alonso, Spánverji sem tók við liðinu í janúar 2020, en hann var aðstoðarþjálfari Ronalds Koeman hjá Everton og tækniþjálfari hjá karlaliði Southampton þegar Mauricio Pochettino var með liðið.