Valur vann Keflavík með fimm mörkum gegn einu þegar liðin mættust í fyrsta leik níundu umferðar Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu suður með sjó í kvöld.

Keflavík komst reyndar yfir í leiknum en Lillý Rut Hlynsdóttir varnarmaður Vals varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir tæplega stundarfjórðungs leik.

Gestirnir frá Hlíðarenda vöknuðu hins vegar til lífsins í seinni hálfleik og Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö marka Valsliðsins og Fanndís Friðriksdóttir, Dóra María Lárusdóttir og Málfríður Anna Eiríksdóttir sitt markið hver.

Valur náði þriggja stiga forskoti á Breiðablik á toppi deildarinnar með þessum sigri en Breiðablik getur komist aftur upp að hlið Vals með sigri gegn Fylki á morgun.

Keflavík er aftur á móti í áttunda sæti deildarinnar með sex stig. KR sem vermir botnsæti deildarinnar með fjögur stig fær Stjörnuna í heimsókn annað kvöld og ÍBV og Selfoss eigast við.

Umferðinni lýkur svo með leik Þórs/KA og HK/Víkings á miðvikdaginn kemur.