Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrrum atvinnu- og landsliðskona í knattspyrnu mun á laugardaginn næstkomandi taka þátt í Járnkarli ásamt eiginmanni sínum Einari Erni Guðmundssyni. Upphaflega var ætlunin að fara þetta þar sem um markmið hjá Einari til langs tíma hafi verið að ræða en nú hefur þátttakan hlotið aukna merkingu í þeirra huga eftir áfall.

Margrét Lára greinir nú frá því í færslu á Facebook að þau muni takast á við þessa áskorun til styrktar fjölskyldu Bryndísar Ýrar Jóhönnudóttur sem fæddist þann 27. júlí eftir 26 vikna meðgöngu og lést þann 12. ágúst síðastliðin eftir hetjulega baráttu og stutt en erfið veikindi.

„Við erum svo þakklát fyrir okkar þrjá stórkostlegu drengi, því það er svo sannarlega ekki sjálfsagt. Lífið getur verið ósanngjarnt og kvalafullt því þann 27. júli síðastliðinn fæddist Bryndís Ýr Jóhönnudóttir eftir 26 vikna meðgöngu algjörlega fullkomin og heilbrigð. Hún sýndi strax sterkan karakter, kraft og dugnað og heillaði alla sem kynntust henni. Þann 12. ágúst lést hún eftir hetjulega baráttu við stutt en erfið veikindi," skrifar Margrét Lára meðal annars í færslu á Facebook.

Þátttaka Margrétar Láru og Einars felur í sér að þau munu hlaupa maraþon, synda 3,8 kílómetra og hjóla 180 kílómetra. ,,Við ætlum að fara þessar þrautir þrjár til styrktar litlu vinkonu okkar og fjölskyldu hennar."

„Við værum afar þakklát fyrir að þið elsku vinir okkar myndu heita á okkur fyrir laugardaginn og í leiðinni að styrkja mjög gott málefni. Vinkonu okkar hana Bryndísi Ýr og móður hennar sem eiga svo sannarlega um sárt að binda. Margt smátt gerir eitt stórt, hugur okkar er hjá ykkur."

Fyrir þá sem eru til í að leggja þessu góða málefni lið: Banki 0345-Hb -03-reikn.nr 400475 kt 140880-3539

Ætlar að hjálpa Einari þegar hann springur

Margrét Lára talaði um verðandi þátttöku sína í Járnkarlinum í þættinum Íþróttavikan með Benna Bó sem var á dagskrá Hringbrautar í upphafi aprílmánaðar:

„Ég er eiginlega ekkert búin að vera uppljóstra um þetta fyrr en núna því ég er eiginlega búinn að vera að hætta við þegar ég áttaði mig á því hvað ég væri búinn að koma mér út í,“ sagði Margrét létt þegar að hún kom í Íþróttavikuna með Benna Bó í upphafi aprílmánaðar fyrr á þessu ári

Einar Örn Guðmundsson, eiginmaður Margrétar, hefur haft það á sínum lista að keppa í fullum járnkalli síðan hann lagði handboltaskóna á hilluna. „Fyrst hann var að fara þá gat ég ekki verið minni maður. Ég ákvað að fara með og hjálpa þegar hann springur,“ sagði hún í Íþróttavikunni.