„Við erum yfirleitt allir mjög góðir á móti Tyrkjum og vorum það aftur í dag. Það er magnað að hafa tekið sex stig úr þessum tveimur leikjum,“ sagði Birkir Bjarnason, leikmaður íslenska landsliðsins, sáttur eftir 2-1 sigur Íslands á Tyrklandi í kvöld.

Þetta var ein besta frammistaða liðsins í langan tíma.

„Það hafa mjög margir reynt að afskrifa okkur og við vildum sýna það að við erum enn metnaðargjarnir. Það var frábært að klára þetta og taka stigin þrjú.“

Birkir átti erfitt með að útskýra það afhverju Ísland væri yfirleitt upp á sitt besta í þessum sumarglugga.

„Erfitt að segja, við erum alltaf klárir og sýndum það enn og aftur í dag. Það er mikill metnaður í þessum hóp og það er langt í að við séum að fara að slaka á.“

Birkir nældi í spjald í leiknum og verður því í banni í næsta leik sem er gegn Moldóvíu.

„Auðvitað er það svekkjandi og ég hefði eflaust mátt vera aðeins rólegri í þessu augnabliki en svona er þetta.“