Staðfest hefur verið að nokkrar af fremstu keilukonum heimsins taka þátt í keilumóti RIG þetta árið, þar á meðal Daniella McEwan sem var í efsta sæti heimslistans í fyrra.

Þetta verður í 12. sinn sem keila verður hluti af RIG og er metþátttaka í ár. Keppt verður í Egilshöll og eru um 40 keiluspilarar að koma erlendis frá.

Meðal þeirra er Daniella sem vann US Open mótið í fyrra sem er eitt stærsta mót heimsins í keilu sem skilaði henni efsta sæti á heimslistanum. Þá hefur hún unnið fjölmarga aðra titla á ferlinum.

Diana Zavjalova mun veita McEwan keppni en hún hefur unnið fjóra PWBA titla, þar á meðal tvö risamót í keilu. Þá er von á Daria Pajak sem var nýliði ársins á PWBA mótaröðinni árið 2018 og Maria José Rodriguez sem hefur unnið einn risatitil.

Í karlaflokki mun Arnar Davíð Jónsson, ríkjandi meistari á Evrópumótaröðinni í keilu taka þátt ásamt liði sínu, Höganås frá Svíþjóð.

Þá er von á Jesper Agerbo, fertugum Dana sem vann HM í einstaklingsflokki árið 2016 og er einn fremsti keiluspilari Danmerkur.