Lionel Messi og Pele minntust Diego Maradona í dag eftir að fregnir bárust af andláti goðsagnarinnar sem varð sextugur fyrr á þessu ári.

Maradona fékk hjartaáfall á heimili sínu og lést í dag. Stutt er síðan hann gekkst undir aðgerð vegna heilablóðfalls en hann hefur glímt við heilsuvandamál undanfarna áratugi.

„Sorgardagur fyrir Argentínu og knattspyrnu. Hann yfirgefur okkur en fer samt ekkert því Diego er eilífur. Ég minnist allra fallegu stundanna sem ég átti með honum og sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina. Hvíl í friði,“ segir Messi í færslu á Instagram í dag.

Pele, brasilíska goðsögnin sem er, ásamt Maradona, talinn einn besti knattspyrnumaður heims, minntist Maradona sömuleiðis. Um áratugabil hefur fólk borið þá tvo saman en Pele sagði sorglegt að horfa á eftir Maradona.

„Það er sorglegt að horfa á eftir góðum vini og heimurinn missti goðsögn . Það er margt hægt að segja en í bili vonast ég til þess að guð gefi fjölskyldu hans styrk. Einn daginn munum við sparka boltanum saman upp í himnaríki.“