Sundmaðurinn Már Gunnarsson átti ansi góða helgi en hann sló heimsmet í 200 metra baksundi á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 50 metra laug. Gamla metið var 2:33.42 en það var frá árinu 1992. Már synti tímanum 2:32,31 en þar að auki bætti hann sig í öllum greinum nema einni. Már sett samtals fjögur Íslandsmet auk síns fyrsta heimsmets.

„Ég fór nú ekki alla leið upp í skýin en ég var vissulega mjög ánægður með þann árangur sem ég náði um helgina. Ég er að uppskera eftir að hafa æft mjög vel í vetur og þá hef ég synt á þriðjungi fleiri mótum en ég hef gert áður á ferlinum. Það er að skila sér og það er ánægjulegt að finna það," segir Már um árangur liðinnar helgar.

„Nú er bara að halda áfram að æfa vel og fram undan er svo Evrópumeistaramótið í Madeira um miðjan maí. Ég er mjög spenntur fyrir því og það hvetur mann áfram að hafa eitthvað til að hlakka til. Það mun svo líklega skila bætingum að komast í sól og fá smá D-vítamín í líkamann," segir sundmaðurinn öflugi.

„Langtímamarkmiðið er svo að ná í verðlaun á Ólympíuleikunum í Tókýó en eins og staðan er núna er ég með þriðja besta tímann í heiminum í 100 metra baksundi.

Það eina sem ég get gert er að búa mig eins best og ég get fyrir leikana og vera í mínu besta formi þegar að því kemur. Ég hef aldrei verið í eins góðu líkamlegu formi og núna og það gefur góð fyrirheit. Ég get ekki gert meira en að passa upp á að ég sé í mínu besta standi þegar á hólminn verður komið," seir hann.

Auk þess að vera að gera það gott í sundinu er Már á fullu í tónlistinni. Nýverið gaf hann út sumarlagið Vinurinn vor með vinkonu sinni Ivu Marín Adrichem sem kom út á dögunum.

„Ég hef mjög gaman að því að sinna tónlistinni á milli æfinga og keppna. Það var mjög gaman að senda út lagið með Ivu og ekki var verra að Laddi var klár í hlutverk í myndbandinu með laginu," segir þessi fjölhæfi maður.

Hér að neðan má sjá myndband sem gefið var út með laginu en þar fer Laddi með eitt hlutverkanna.