Manchester United og Chelsea tryggðu sér í dag sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en þá fór lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla fram.

Liverpool var nú þegar orðið enskur meistari og Manchester City var komið með farseðil í Meistaradeildina. Virgil van Dijk, Divock Origi og Sadio Mané sáu til þess að Liverpool vann Newcastle United og Gabriel Jesus, Kevin De Bruyne (2), Raheem Sterling og Riyad Mahrez skoruðu í sannfærandi sigri Manchester City gegn föllnu liði Norwich City.

Bruno Fernandes sem komið hefur eins og stormsveipur inn í lið Manchester United kom lærisveinum Ole Gunnar Solskjær á bragðið þegar liðið hafði betur, 2-0, gegn Leicester City. Jesse Lingard geirnegldi svo sæti Rauðu Djöflanna í Meistaradeildinni með seinna marki liðsins undir blálok leiksins.

Mason Mount og Olivier Giroud voru svo á skotskónum fyrir Chelsea þegar liðið lagði Wolves að velli með tveimur mörkum gegn engu. Frank Lampard skilaði því Meistaradeildarsæti á sinni fyrstu leiktíð í brúnni á Stamford Bridge.

Leicester City sem var í góðri stöðu í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni þegar COVID skall á verður að gera sér Evrópudeildina að góðu næsta vetur. Jafntefli Tottenham Hotspur dugði liðinu til þess að komast í Evrópudeildina en Harry Kane skoraði þar 19. deildarmark sitt fyrir liðið. José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, er líklega þokkalega sáttur með niðurstöðuna.

Jamie Vardy, framherji Leicester City, endaði sem markahæsti leikmaður deildarinnar en hann bætti þar af leiðandi met Didier Drogba og er elsti leikmaðurinn til þess að vera markahæstur.

Pierre-Emerick Aubameyang og Danny Ings koma næst á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með 22 mörk hvor. Aubameyang skoraði tvö mörk í sigri Skyttanna gegn Watford. Þetta tap varð til þess að Watford féll í B-deildina.

Sigur Bournemouth gegn Everton dugði ekki til þess að halda liðinu í deild þeirra bestu. Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Everton sem sóknartengiliður.

Jóhann Berg Guðmundsson endaði svo meiðslum hrjáð tímabil sitt á góðum nótum fyrir sig persónulega. Jóhann Berg lék fyrstu 75 mínúturnar í tapi gegn Brighton.

Svo gæti farið að sjöunda sæti veiti Wolves þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð en það fer eftir því hvernig bikarúrslitaleikur Chelsea og Arsenal sem spilaður verður laugardaginn 1. ágúst á Wembley.