Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United eru í viðræðum við kollega sína hjá spænska félaginu Barcelona um að fá franska landsliðsmanninn Ousmane Dembele á láni út nýhafna leiktíð.

Dembele gekk til liðs við Barcelona frá Borussia Dortmund á metfé hjá spænska félaginu, tæpa 100 milljónir punda, í ágúst árið 2017. Meiðsli og agaleysi franska kantmannsins hafa orðið til þess að hann hefur einungis leikið 75 leiki í öllum keppnum á þeim tíma sem hann hefur verið á mála hjá félaginu.

Manchester United lagði fram upp á rúmlega 90 milljónir punda í enska landsliðsmanninn Jadon Sancho sem leikur fyrir þýska liðið Borussia Dortmund en því tilboði var hafnað.

Það er forgangsatriði hjá Manchester United að tryggja sér vængmann en félagið hefur einnig augastað á Ismaila Sarr, leikmanni Watford, Luka Jovic hjá Real Madrid og Edinson Cavani sem rann úti á samning hjá PSG í sumar.