Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur gert breytingar á skipulagi sínu með því að ráða John Murtough sem yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu. Þá mun Darren Fletcher starfa sem tæknilegur ráðgjafi.

Murtough hefur verið í herbúðum Manchester United í sjö ár en hann sinnti síðast starfi yfirmanns þróunarmála en færir sig nú um set innan félagins.

Ed Woodward, varastjórnarformaður Manchester United, segir að starf Murtaugh muni fela í sér að hafa heildar yfirsýn yfir knattspyrnumál hjá félaginu allt frá akademíustarfinu upp í aðalliðin.

Þá muni hann vinna náið með Ole Gunnar Solskjær í heildarskipulagi á knattspyrnuhluta félagins og í kaupum á nýjum leikmönnum. Matt Judge mun svo sjá um samningamál hjá Manchester United.

Fletcher, sem kom inn í þjálfarateymi Solskjær í janúar á þessu ári, lék rúmlega 340 leiki fyrir Manchester United frá 2003 and 2015. Það verður á hans ábyrgð að stýra þróun ungra leikmanna og brúa bilið milli akademíunnar og aðalliðsins.