Manchester United getur tyllt sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla með stigi eða stigum þegar sækir Burnley heim á Turf Moor í kvöld. Fyrir leikinn í kvöld eru Liverpool og Manchester United jöfn að stigum á toppnum en Liverpool sem hefur leikið einum leik fleira en erkifjandinn hefur hagstæðari markatölu.

Manchester United hefur ekki verið í jafn góðri stöðu í janúar síðan Sir Alex Ferguson steig úr stóli knattspyrnustjóra hjá liðinu árið 2013. Liverpool og Manchester United voru síðast í harðri baráttu um enska meistaratitilinn vorið 2009 en þá hafði Manhester United betur.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir óvíst hvort Eric Bailly, Paul Pogba, Victor Lindelöf og Luke Shaw verði leikfærir í leiknum í kvöld en þeir verði nánast örugglega orðnir leikfærir þegar liðið fer á Anfield á sunnudaginn kemur og mætir Liverpool í toppslag í 18. umferð deildarinnar.

Lindelöf og Shaw æfðu með liðinu í gær og ættu að geta spilað í kvöld en Bailly og Pogba eru meira spurningamerki. Manchester United endurheimtir Edinson Cavani í leiknum í kvöld en hann hefur setið af sér þriggja leikja bann sem hann fékk fyrir Instagram-skilaboð sem þóttu sýna rasísk skilaboð.

Everton enn í seilingarfjarlægð frá toppnum

Jóhann Berg Guðmundsson lék langþráður 83 mínútur með Burnley þegar liðið lagði MK Dons að velli í 64 úrslitum ensku bikarkeppninnar um síðustu helgi. Jóhann Berg lék siðast deidlarleik með Burnley 23. nóvember síðastliðinn.

Everton leikur svo við Wolves á Molineux í kvöld en Gylfi Þór Sigurðsson kom inná eftir rúmlega klukkutíma þegar Everton hafði betur gegn Rotherham í framlengdum leik í enska bikarnum í hádeginu á laugardaginn.

Dominic Calvert-Lewin, sem er markahæsti leikmaður Everton á leiktíðinni með 11 mörk, er meiddur og verður ekki með í þessum leik og þá er tvísýnt um þátttöku Richarlison.

Everton er í sjöunda sæti með 29 stig, fjórum stigum frá toppliðum deildarinnar, eins og sakir standa. Gylfi Þór var i frábæru formi með Everton-liðinu í desember en hann skoraði tvö mörk í mánuðinum. Þá lagði hann upp tvö mörk fyrir samherja sína.

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar hér sigurmarki sem hann skoraði fyrir Everton gegn Sheffield United um jólin.
Fréttablaðið/EPA