Enska knattspyrnufélagið Manchester United er í viðræðum við portúgalska félagið Porto um kaup á brasilíska vinstri bakverðinum Alex Telles.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur hug á því að styrkja vinstri bakvarðarstöðuna hjá liðinu en Luke Shaw og Brandon Williams hafa mest megnis skipt þeirri stöðu á milli sín undir stjórn Norðmannsins.

Porto vill fá 18 milljónir punda fyrir Telles sem á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og gæti því skrifað undir samning við annað félag og farið án greiðslu næsta sumar.

Telles hefur skorað 21 mark í 127 leikjum fyrir liðið auk þess að leika einn leik fyrir brasilíska landsliðið.

Manchester United sem laut í lægra haldi fyrir Crystal Palace í fyrstu umferð ensku úrvalsdleildarinnar og vann svo Brighton naumlega í annarri umferð mætir Brighton í næsta leik sínum í enska deildarbikarnum annað kvöld.

Næsti deildarleikur Manchester United er svo á móti Tottenham Hotspur á Old Trafford á sunnudaginn kemur.