Sléttur mánuður er þar til að 76. ársþing Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) verður sett í Íþróttamiðstöðinni að Ásvöllum í Hafnarfirði. Meðal þeirra mála sem tekin verða fyrir þar er kosning formanns sambandsins. Það er orðið ljóst að núverandi formaður sambandsins, Vanda Sigurgeirsdóttir, mun bjóða sig fram til áframhaldandi setu. Vanda var kosin formaður KSÍ á aukaþingi sambandsins í október á síðasta ári.

Vanda var á sínum tíma fyrst kvenna til þess að vera kosin formaður KSÍ sem og fyrst kvenna til þess að taka við embætti formanns hjá aðildarsambandi Evrópska knattspyrnusambandsins. Hún tók við formennsku á erfiðum tímum hjá KSÍ eftir að fyrrverandi formaður sambandsins, Guðni Bergsson, hætti í kjölfarið á því að hafa farið með rangt mál í fréttaþættinum Kastljósi þar sem hann sagði að KSÍ hefði ekki borist nein tilkynning um kynferðisbrot leikmanna.

Í venjulegu árferði er kosið til formanns KSÍ annað hvert ár og hann kjörinn til tveggja ára í senn. Í ljósi öldugangsins sem skall á veggjum KSÍ á síðasta ári er aftur kosið til formanns á þessu ári.

Engin mótframboð hafa borist til KSÍ hingað til en sögusagnir hafa heyrst um að ýmsir aðilar séu að íhuga framboð, þar með talið fyrrum þingmennirnir Páll Magnússon og Brynjar Níelsson.

Páll sagði í samtali við vefsíðuna Fotbolti.net undir lok síðasta árs að margir hefðu komið að máli við hann um að bjóða sig fram. Hann sagði hins vegar ekkert liggja fyrir um það hvort af framboði hans yrði eða ekki.

Lög KSÍ kveða á um að tilkynning um framboð ásamt skriflegum meðmælum frambjóðanda þurfi að berast skrifstofu KSÍ minnst hálfum mánuði fyrir þing. Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, að sambandið muni senda frá sér bréf til aðildarfélaga í vikulok þar sem kallað verður eftir framboðum til formanns sem og stjórnar KSÍ.