Sadio Mane er nýjasta nafnið sem er orðað við Real Madrid en heimildir France Football segja að hann hafi verið efstur á óskalista Zinedine Zidane áður en sá franski yfirgaf félagið. 

Mane var einn besti leikmaður Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Kænugarði á dögunum gegn Real Madrid en hann er á öðru ári sínu í Bítlaborginni. Hefur hann leikið 73 leiki og skorað í þeim 33 mörk á tveimur árum.

Þurfa Madrídingar að hressa upp á sóknarlínuna til að ná Börsungum í deildarkeppninni á Spáni. Þá er  óvíst um framhaldið hjá Gareth Bale, Cristiano Ronaldo og Karim Benzema hjá félaginu en allir hafa þeir verið orðaðir við önnur félög.

Liverpool hefur lítinn áhuga á að missa Mane til Real Madrid og verður fróðlegt að fylgjast með framgangi mála í sumar en Mane hefur verið í viðræðum við Liverpool um nýjan samning.