Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool staðfesti það á blaðamannafundi sem haldinn var í dag að Sadio Mané og Dejan Lovren verði báðir fjarverandi þegar liðið mætir Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í hádeginu á morgun vegna meiðsla sinna. 

Fyrr hafði Liverpool tilkynnt það að Joe Gomez yrði frá í fjórar til sex vikur vegna meiðsla sinna sem hann varð fyrir í leik liðsins gegn Burnley í vikunni. 

Leikur liðanna fer fram á Vitality Stadium heimavelli Bournemouth og hefst klukkan 12.30 á morgun. 

Fyrir leikinn er Liverpool í öðru sæti deildarinnar með 39 stig og getur skotist upp á topp deildarinnar í stundarsakir hið minnsta með sigri í leiknum. 

Bournemouth hefur hins vegar komið mörgum á óvart með vaskri framgöngu sinni á leiktíðinni og situr í sjöunda sæti með 23 stig og mun berjast um sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð ef fram heldur sem horfir.