Sadio Mane, leikmaður Liverpool, hefur lítið æft með liðinu í þessari viku vegna meiðsla sem tóku sig upp í leik liðsins gegn Chelsea um síðustu helgi en Liverpool á framundan afar mikilvægan leik.

Liverpool verður að fá að minnsta kosti stig gegn Brighton á morgun til þess að vera öruggir með sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári en leikurinn fer fram á heimavelli Liverpool, Anfield.

Klopp sagðist í samtali við blaðamenn í Bretlandi ekki vera viss hvort að Mane yrði klár í slaginn en hann hefur skorað 19 mörk í öllum keppnum í vetur en hann fer á meiðslalistann ásamt Joel Matip, Joe Gomez, Emre Can og Alex Oxlade-Chamberlain.

Það voru þó líka jákvæð tíðindi fyrir Liverpool en Adam Lallana er farinn að æfa með liðinu. Hann ætti að geta verið klár í slaginn ef kallið kemur í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í lok mánaðarins.