Manchester City er handhafi allra þriggja stóru titlanna sem keppt er um í ensku knattspyrnunni í karlaflokki.

Liðið tryggði sér sigur í ensku bikarkeppninni með því að leggja Watford að velli með sex mörkum gegn engu í úrslitaleik keppninnar á Wembley í dag.

Manchester City komst tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik en David Silva skoraði fyrra markið eftir stoðsendingu frá Raheem Sterling og Sterling var svo sjálfur að verki þegar hann skoraði það seinna eftir góða sendingu frá Bernardo Silva og skot Gabriel Jesus sem var á leið í mark Watford.

Kevin De Bruyne kom svo inná sem varamaður um miðbik seinni hálfleiks og skömmu síðar var hann búinn að bæta þriðja marki Manchester City við.

Belgíski sóknartengiliðurinn lagði svo upp fjórða mark Manchester City fyrir Gabriel Jesus sem hafði þar af leiðandi skorað eitt mark og lagt upp annað í leiknum.

Raheem Sterling batt svo endahnútinn á markaveislu Manchester City þegar hann fullkomnaði þrennu sína með mörkum undir lok leiksins en Bernardo Silva lagði upp sitt annað mark í leiknum í öðru marki Sterling.

Manchester City er fyrsta karlaliðið til þess að vinna enska meistaratitilinn, enska deildabikarinn og enska bikarinn á einni og sömu leiktíðinni.

Kvennaliði Arsenal hafði áður tekist að gera slíkt hið sama.

Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Manchester City síðan árið 2011 og sjötta skipti í sögu félagsins sem liðið verður bikarmeistari.