Manchester City hafði betur 2-1 þegar liðið fékk Chelsea í heimsókn á Etihad-leikvanginn í síðasta leik dagsins í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik en það var Chelsea sem komst raunar yfir með marki franska miðvallvarleikmannsins N'golo Kante. Þetta var þriðja markið sem Kante skorar í deildinni á yfirstandandi leiktíð.

Það voru hins vegar Kevin de Bruyne og Riyad Mahrez sem sáu til þess að Manchester City fór með sigur af hólmi. Báðir skoruðu þeir eftir laglegan einleik en skot Belgans hafði viðkomu í varnarmanni á meðan Alsíringurinn skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Manchester City sem laut í lægra haldi fyrir Liverpool í síðustu umferð deildarinnar skaust upp í þriðja sæti deildarinnar með þessum sigri. Meistararnir eru þar með 28 stig en Leicester City er í öðru sæti með 29 stig og Liverpool trónir á toppnum með 37 stig.

Chelsea sem hafði borið sigurorð í sex síðustu deildarleikjum sínum fyrir þetta tap hefur 26 stig í fjórða sæti deildarinnar. Leikmenn Chelsea sköpuðu sér engin opin færi til þess að jafna metin og sanngjarn sigur Manchester City staðreynd.

Manchester City var tvisvar sinnum nálægt því að bæta við forystuna en Sergio Agüero átti skot í þverslána og Raheem Sterling skoraði mark í uppbótartíma leiksins sem var dæmt af eftir myndbandsdómgæslu í uppbótartíma leiksins.

Umferðin heldur áfram á morgun með leik Sheffield United og Manchester United og lýkur svo með leik Aston Villa og Newcastle United á mánudagskvöldið kemur.