Manchester City vann sannfærandi 4-0 sigur þegar liðið fékk nýkrýnda Englandsmeistara í knattspyrnu karla í heimsókn á Etihad-völlinn í kvöld.

Það var Kevin De Bruyne sem byrjaði markaveisluna fyrir Manchester City með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Joe Gomez fyrir að toga í Raheem Sterling.

Sterling skoraði svo sjálfur annað mark Manchester City og Phil Foden bætti þriðja marki liðsins við. Staðan var 3-0 í hálfleik og leikmenn Liverpool komnir úr sjöunda himni.

Alex Oxlade-Chamberlain bætti svo gráu ofan á svart þegar hann skoraði sjálfsmark um miðbik seinni hálfleiks. Liverpool er á toppi deildarinnar með 86 stig en Manchester City er í öðru sæti með 66 stig.

Fyrr í kvöld hafði Sheffield United betur gegn Tottenham Hotspur með þremur mörkum gegn einu í leik liðanna á Bramall Lane. Sheffield United skaust upp í sjöunda sæti með 47 sstig með þessum sigri en Tottenham Hotpsur er í því níunda með tveimur stigum minna.