Forsvarsmenn enska knattspyrnufélagsins Manchester City segja, í samtali við Sky Sports News, að engar viðræður eigi sér stað þessa stundina milli félagsins og argentínska framherjans Lionel Messi um vistaskipti hans til Englands næsta sumar.

Messi rennur út á samningi hjá Barcelona eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur og orðrómur um að hann ætli að leita á önnur mið á þeim tímapunkti er mjög sterkur. Argentínumaðurinn hefur sjálfur sagt að hann liggi undir feldi um framtíð sína.

Talið er að líklegast að hann muni endurnýja kynni sín við Pep Guardiola og ganga til liðs við Manchester City, hefja aftur samvinnu sína með Neymar hjá PSG eða halda til Bandaríkjanna og leika í MLS-deildinni.

Síðustu mánuðina hefur sambandið hjá Messi og stjórnarmönnum Barcelona verið stirt en á dögunum lak samningur hans við félagið út til fjölmiðla.

Leiddar hafa verið líkur að því að stjórn Barcelona hafi gert það en því neita yfirmenn Katalóníufélagsins, sem glímir við mikla fjárhagsörðugleika, hins vegar staðfastlega.

Barcelona er eins og sakir standa í þriðja sæti spænsku efstu deildarinnar en liðið mætir Cadiz um helgina á Nou Camp. Þar freistar Barcelona þess að komast aftur á sigurbraut eftir að hafa tapað, 4-1, fyrir PSG, í fyrri leik liðanna í Meistaradeild Evrópu á heimavelli sínum í vikunni.