Tilkynnt var í gær að argentínski framherjinn Sergio Agüero muni yfirgefa herbúðir enska knattspyrnufélagsins Manchester City þegar yfirstandandi keppnistímabili lýkur eftir rúmlega áratuga þjónustu hans við félagið.

Enskir fjölmiðlar segja frá því að forráðamenn Manchester City renni hýru auga til Danny Ings, sem leikur með Southampton, til þess að fylla skarð Agüero.

Þá hefur norska ungstirnið Erling Braut Håland, leikmaður þýska félagsins Borussia Dortmund, og Tottenham Hotspur-maðurinn Harry Kane einnig verið orðaðir við Manchester City sem trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Ekki liggur fyrir hver næsti áfangastaður verður á ferli Agüero en Chelsea og heimkoma til heimalandsins hafa helst verið nefnd til sögunnar í þeim efnum.