Úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla fer fram á Wembley klukkan 16.00 í dag. Þar leiða saman hesta sína Manchester City sem hefur nú þegar tryggt sér enska meistaratitilinn og enska deildabikarinn á leiktíðinni og Watford sem hafnaði í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir gott keppnistímabil.

Fyrir Manchester City er hvatningin að vinna þennan bikar að fá rós í hnappagatið og verða bikarmeistari í sjötta skipti í sögu félagsins og í fyrsta skipti síðan árið 2011. Fyrir Watford er hvatningin auk þess að verða bikarmeistari í fyrsta skipti í sögunni einnig fjárhagslegs eðlis þar sem í húfi fyrir liðið er sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð með sigri í þessum leik.

Watford hefur einu sinni farið alla leið í úrslitaleik bikarkeppninnar en það var vorið 1984 þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Everton þar sem Graeme Marshall Sharp og Andy Gray skoruðu mörk Everton í 2-0 sigri liðsins. Síðan þá hefur liðið ekki keppt um verðlaun og flakkað á milli deilda í ensku deildakeppninni.

Pep Guardiola getur orðið bikarmeistari í fimmta skipti á knattspyrnustjóraferli sínum en hann varð tvisvar sinnum bikarmeistari sem knattspyrnustjóri Barcelona og sömuleiðis tvívegis þegar hann stýrði Bayern München. Þá getur hann bætt fimmta titlinum í safnið á meðan hann er við stjórnvölinn hjá Manchester City en liðið varð enskur meistari í annað sinn undir hans stjórn á dögunum og hefur auk þess unnið enska deildabikarinn tvívegis með Pep við stýrið.

Flestir telja að Manchester City fari með sigur af hólmi í þessum leik en 38 stig skildu liðin að þegar upp var staðið í ensku úrvalsdeildinni. Það hefur hins vegar margoft sýnt sig að í bikarkeppni getur allt gerst og Davíð getur hæglega lagt Golíat að velli.