Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi sérfræðingur Sky Sports segir að best væri fyrir Manchester United að leyfa Cristiano Ronaldo, leikmanni liðsins að fara frá félaginu á frjálsri sölu eftir allt fjaðrafokið undanfarnar vikur. Ronaldo vill komast frá Manchester United en lítið virðist þokast í mögulegum félagsskiptum.

Skoðun Manchester United hefur hingað til verið sú að Ronaldo sé ekki til sölu. Hann kom til félagsins á ný í upphafi síðasta tímabils og á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum við Rauðu djöflana.

Gengi Manchester United var ekki upp á marga fiska á síðasta tímabili og endaði meðal annars með því að liðinu tókst ekki að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á komandi tímabili. Það er ein ástæða þess að Ronaldo vill yfirgefa herbúðir Manchester United.

Carragher telur að Erik ten Hag, sem er að fara inn í sitt fyrsta tímabil sem knattspyrnustjóri Manchester United væri að senda skýr skilaboð með því að losa sig við Ronaldo. Carragher segir hegðun Ronaldo skemma út frá sér og að hún grafi undan liðinu.

,,Ten Hag fékk í hendurnar óvænta og erfiða áskorun á fyrstu dögum sínum sem knattspyrnustjóri Manchester United," skrifar Carragher í pistli hjá The Telegraph og segir það hafa verið mistök hjá Manchester United að semja við Ronaldo á ný á sínum tíma.

,,Ég lét í ljós mína skoðun á þessum félagsskiptum þá og allt sem hefur gengið á frá þeim degi staðfestir að þetta voru mistök."