Ragnick semur við Manchester United út yfirstandi tímabil sem knattspyrnustjóri en hann mun síðan taka að sér ráðgjafarhlutverk hjá félaginu eftir tímabilið og gera samning til tveggja ára.

,,Ég er spenntur fyrir því að ganga til liðs við Manchester United og mun einblína á að tímabilið verði árangursríkt fyrir félagið. Leikmannahópurinn býr yfir miklum gæðum og er með góða blöndu af yngri og reyndari leikmönnum. Allir kraftar mínir næstu sex mánuði munu fara í að hjálpa þessum leikmönnum að ná fram sínu besta bæði á einstaklingssviði sem og sem lið," sagði Ragnick í tilkynningu sem birtist frá Manchester United.

,,Ralf er einn af virtustu þjálfurum og frumkvöðlum á sviði evrópskrar knattspyrnu. Hann var efstur á lista hjá okkur í ráðningarferlinu og býr yfir miklum leiðtoga- og tæknilegum hæfileikum með rúmlega fjóra áratugu af reynslu í stjórnun og þjálfun," sagði John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United um ráðninguna á Ralf Ragnick.

Ragnick hefur undanfarna mánuði starfað sem yfirmaður á íþrótta- og þróunarsviði hjá rússneska félaginu Lokomotiv Mosku og samkvæmt heimildum The Athletic fóru forráðamenn Manchester United að kafa dýpra í stöðu hans og samningsmál hjá rússneska félaginu eftir tap gegn Manchester City þann 6. nóvember síðastliðinn.

Næstu vikuna eftir það voru fulltrúar á vegum Manchester United beðnir um að skoða það hvort möguleiki væri á því að ná Ragnick frá Lokomotiv Moskvu.

Eftir símtal frá Murtough á sunnudaginn talaði Ragnick einnig við Ed Woodward, fráfarandi framkvæmdarstjóra Manchester United sem og Richard Arnold, arftaka hans.

Í kjölfar jákvæðra umræðna um möguleikann á því að Ragnick tæki við sem bráðabirgðastjóri Manchester United, var ákveðið að hann myndi ferðast til Lundúna á þriðjudaginn síðastliðinn þar sem hann átti fund með forráðamönnum Manchester United

Auk Ragnicks, höfðu forráðamenn Manchester United einnig kannað stöðuna hjá knattspyrnustjórunum Ernesto Valverde og Rudi Garcia en Ragnick var þeirra fyrsti kostur.

Það reyndist ekkert vandamál fyrir Manchester United að ná Ragnick frá Moskvu. Félag hans þar sýndi mikinn skilning á stöðu hans.

Rangnick hefur áður verið knattspyrnustjóri liða á borð við Hannover, Schalke, Hoffenheim og Red Bull Leipzig.

Þá stýrði hann einnig lítt þekktu liði Ulm upp í þýsku úrvalsdeildina í fyrsta skipti í sögu félagsins. Þá hefur hann einnig gegnt stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Red Bull Salzburg og Red Bull Leipzig á sínum ferli við góðan orðstír.

Ragnick tekur við Manchester United í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Þar situr liðið með 18 stig eftir þrettán umferðir. Þá er liðið einnig búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.