Enska úrvalsdeildarfélagið hefur sent frá sér sína aðra yfirlýsingu í tengslum við umdeilt viðtal sem stjörnuleikmaður liðsins, Cristiano Ronaldo fór í hjá breska fjölmiðlamanninum Piers Morgan á dögunum.

Í yfirlýsingu félagsins segir að málið sé komið í ákveðið ferli innan félagsins og að það muni ekki tjá sig frekar um málið fyrr en því sé lokið.

Þetta er önnur yfirlýsing félagsins á nokkrum dögum um málið og báðar eru yfirlýsingarnar fáorðar. Fyrst vildi félagið bíða eftir því að öll kurl væru komin til grafar, nú er málið komið í ferli.

Viðtalið sem Ronaldo fór í hjá Morgan hefur vakið mikla athygli en þar segir Ronaldo farir sínar ekki sléttar hjá Manchester United.

Í við­talinu tjáir Ron­aldo sig um stöðu sína hjá Manchester United, fé­lagið hafi svikið hann, gert hann að svörtum sauð. Þá segist hann ekki bera virðingu fyrir nú­verandi knatt­spyrnu­stjóra fé­lagsins, Erik ten Hag.

Mikið hefur verið rætt og ritað um fram­tíð Ron­aldo hjá Manchester United undan­farna mánuði, hann hafi viljað komast frá fé­laginu síðast­liðið sumar en ekkert varð af því. Nú þykir nánast öruggt að hann yfir­gefi fé­lagið í janúar næst­komandi, við­talið sjái til þess.