Það berast nú stórfréttir úr herbúðum Manchester United að mati félagsins en í samráði við knattspyrnustjórann Erik ten Hag hefur verið ákveðið að þjálfarateymi og varamenn félagsins sitji á varamannabekknum sem hefur áður fyrr verið fyrir gestaliðin á Old Trafford, heimavelli Manchester United.

Manchester United spilar í fyrsta skipti undir stjórn Erik ten Hag á Old Trafford á sunnudaginn kemur í æfingaleik gegn spænska liðinu Rayo Vallecano þar sem þessi breyting verður tekin í gildi.

Eftir sína fyrstu heimsókn á Old Trafford tók Ten Hag eftir því að varamannabekkur gestaliðsins væri nær leikmannagöngunum sem og Stretford End, stúkunni þar sem harðasti og háværasti stuðningsmannakjarni Manchester United situr.

Þá er svæðið frá þeim varamannabekk og að leikmannagöngunum það svæði sem varamenn hita upp á. Þá mun þetta einnig hafa þau áhrif að leikmenn Manchester United munu nú hita upp fyrir leiki á vallarhelmingnum nær Stretford End sem gæti gírað þá meira upp fyrir leiki.

Tímabilið í ensku úrvalsdeildinni hefst í næstu viku. Manchester United tekur á móti Brighton í fyrstu umferð.