David Ornstein, blaðamaðurinn virti hjá The Athletic segir frá því í dag að Manchester United þokist í átt að samkomulagi við Real Madrid varðandi kaupverð á leikmanni spænska stórveldisins Casemiro sem er aðalskotmark forráðamanna Manchester United fyrir lok félagsskiptagluggans.

Heimildir The Athletic herma að Casemiro horfi á það jákvæðum augum að ganga til liðs við Manchester United en búist er við því að hann yrði meðal launahæstu leikmanna félagsins.

Casemiro er þrítugur miðjumaður með mikla reynslu en á tíma sínum hjá Real Madrid hefur hann orðið spænskur meistari í þrígang, Evrópumeistari fimm sinnum og unnið heimsmeistarakeppni félagsliða í þrígang.

Heimildir The Athletic herma einnig að Casemiro hafi verið á lista hjá forráðamönnum Manchester United, yfir mögulegar viðbætur við leikmannahóp liðsins, til lengri tíma. Félagið hafi lagt áherslu á að reyna fá inn Frenkie De Jong frá Barcelona en nú þegar möguleikar á að fá hann til liðs við félagið í glugganum virðast hafa fjarað út hafi, sé aðal áherslan lögð á að reyna ná inn Casemiro.