Pochettino hefur verið orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Manchester United undanfarið en Leonardo segir að PSG vilji ekki missa hann frá sér.

,,Við viljum ekki missa hann frá okkur. Hann hefur ekki beðið um að losna frá okkur og það hefur ekkert félagslið haft samband við okkur í tengslum við hann," sagði Leonardo við AFP fréttaveituna.

Þá segir hann PSG ekki hafa rætt við Zinedine Zidane, sem hefur verið orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá PSG. ,,Við berum mikla virðingu fyrir því sem Zidane hefur gert sem leikmaður og knattspyrnustjóri en ég get fullvissað ykkur um að við höfum ekki átt í samskiptum við hann né fundað með honum," sagði Leonardo, yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG, við AFP fréttaveituna.

Uppi hefur verið hávær orðrómur um að Pochettino gæti tekið við knattspyrnustjórastöðunni hjá Manchester United fyrir næsta tímabil.

Enska félagið er að ganga frá ráðningu á bráðabirgðastjóra. Ralf Ragnick mun taka við stjórnartaumunum á Old Trafford til loka tímabils.

Pochettino er með samning hjá PSG til sumarsins 2023 og því þyrfti Manchester United að kaupa hann af franska liðinu.