Marcus Rashford skoraði sigurmark Manchester United þegar liðið fór með sigur af hólmi gegn Tottenham Hotspur í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Wembley í dag. 

Rashford fékk þá laglega stungusendingu inn fyrir vörn Tottenham Hotspur frá Paul Pogba og kláraði færið með föstu og hnitmiðuðu skoti í fjærhornið sem Hugo Lloris markvörður Tottenham Hotspur réði ekki við. 

Ole Gunnar Solskjær sem tók við stjórnartaumunum hjá Manchester United skömmu fyrir jól hefur nú stýrt liðinu til sigur í sex leikjum í röð í öllum keppnum. 

Manchester United er komið upp að hlið Arsenal sem situr í fimmta sæti deildarinnar, en liðin eru sex stigum á eftir Chelsea sem er í fjórða sætinu sem er neðsta sætið sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. 

Tottenham Hotspur er svo í þriðja sæti deildarinnar með 48 stig, en liðið er níu stigum á eftir Liverpool sem trónir á toppi deildarinnar.