Manchester City bætti þrjú met í ensku úrvalsdeildinni með 3-1 sigrinum á Brighton í vikunni en þeir gætu enn bætt þónokkur met til viðbótar í lokaumferðinni um helgina þegar þeir mæta Southampton á útivelli.

Annað mark City gegn Brighton sem Bernando Silva skoraði var mark númer 104 í vetur en með því bætti City átta ára gamalt met Chelsea. Með sigrinum bættu þeir einnig met Chelsea yfir flesta sigra (31) og stig (97) í ensku úrvalsdeildinni.

Fyrir umferðina er Manchester City með nítján stiga forskot á Manchester United í öðru sæti en stærsti munurinn á milli fyrsta og annars sæti er átján stig.

Þá þarf kraftaverk til að Manchester City bæti ekki metið yfir bestu markatöluna (+71, Chelsea) en Manchester City er með markatölu upp á 78 mörk í plús fyrir lokaumferðina.

Á sama tíma geta þeir náð metinu yfir flesta útisigra á einu tímabili með sextánda sigri sínum en með því myndu þeir líka bæta metið yfir flest stig á útivelli á tímabili. Eru þeir komnir með 47 stig í 18 leikjum.

Takist þeim að vinna stórsigur á Southampton í lokaumferðinni geta þeir gert atlögu að meti Liverpool(48) yfir flest mörk á útivelli í deildinni.

Þá geta þeir bætt eigin met yfir flesta sigra á einu tímabili í efstu deild frá upphafi með 32. sigrinum en metið sem City deilir með Tottenham er 58 ára gamalt.