Móðir Kyian Mbappé hefur tjáð sig um stöðuna sem sonur sinn er í núna en Mbappe stendur til boða að skrifa undir nýjan samning við Paris Saint-Germain eða ganga til liðs við Real Madrid.

Fayza er móðir Mbappe og í samtali við KoraPlus segir hún að búið sé að ná samkomulagi við bæði félög.

,,Tilboðin eru nánast eins en nú er þetta undir Kylian komið, hann mun taka ákvörðunina."

Það er Fabrizio Romano, íþróttablaðamaðurinn virti sem greinir frá þessum tíðindum á samfélagsmiðlum hjá sér en áhugavert verður að sjá hvað Mbappé gerir.

Nánustu aðstandendur Mbappe eiga von á því að hann tilkynni á sunnudaginn hvar hann ætli sér að skrifa undir samning.

Flestir áttu von á því að franski sóknarmaðurinn myndi semja við Real Madrid og myndi ganga til liðs við félagið í sumar þegar samningur hans rennur út í Parísarborg en honum kann að hafa snúist hugur eftir að PSG bar undir hann veglegt tilboð.